Körfubolti

Martin skýtur aðeins á liðsfélaga sína úr landsliðinu á Twitter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel, Martin og Jón Arnór.
Pavel, Martin og Jón Arnór. Vísir/Stefán
KR-ingar eru með fullt hús á toppi Domino´s deildar karla í körfubolta eftir þrjá sannfærandi sigra í fyrstu þremur umferðunum.

KR-liðið vann 25 stiga sigur á Grindavík í gær eftir að hafa unnið Skallagrím og Tindastól í leikjunum á undan. Þessi þrjú lið hafa síðan samanlagt unnið 5 af 6 leikjum sínum fyrir utan leikinn við KR.

Gott gengi KR-liðsins hefur vakið athygli enda er liðið að spila án landsliðsmannanna Jóns Arnórs Stefánssonar og Pavels Ermolinskij.

KR-ingurinn Martin Hermannsson er núna á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður en hann leikur með franska liðinu Etoile Charleville-Mezieres og hefur byrjað leiktíðina mjög vel. Martin Hermannsson var með 26 stig og 3 stoðsendingar í fyrstu umferðinni.

Martin fylgist engu að síður vel með sínum mönnum í KR-liðinu þrátt fyrir að vera búsettur í Norður-Frakklandi og hann datt inn á Twitter í gær á meðan KR-liðið var að fara illa með Grindvíkinga.

Martin var einmitt valinn besti leikmaður lokaúrslitanna þegar KR vann Grindavík í úrslitaeinvíginu og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 2014.

Martin skýtur aðeins á liðsfélaga sína úr landsliðinu á Twitter en það má líka líta á þessa færslu hans sem mikið hrós til hinna í liðinu sem hafa spilað svo vel án sinna stærstu stjarna.

„Pavel og Jón who?,“ spurði Martin á Twitter í gærkvöldi. Það að KR sé að vinna svona sannfærandi sigra án þeirra Jóns Arnórs Stefánssonar og Pavels Ermolinskij er væntanlega það sem mótherjar þeirra hræðast mest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×