Erlent

Uppreisn í Mosul barin niður af ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Uppreisnarmennirnir eru sagðir hafa verið vígamenn ISIS, ekki íbúar Mosul. Er það sagt vera til marks um að samtökin séu að missa stjórn á vígamönnum sínum. Myndin er frá sumrinu 2014 þegar ISIS lagði undir sig stóran hluta Írak.
Uppreisnarmennirnir eru sagðir hafa verið vígamenn ISIS, ekki íbúar Mosul. Er það sagt vera til marks um að samtökin séu að missa stjórn á vígamönnum sínum. Myndin er frá sumrinu 2014 þegar ISIS lagði undir sig stóran hluta Írak. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins hafa barið niður tilraun til uppreisnar í borginni Mosul í Írak. Einn af foringjum samtakanna í borginni ætlaði að skipta um lið og hjálpa stjórnvöldum að frelsa borgina.

Reuters fréttaveitan segir frá því að 58 hafi verið teknir af lífi fyrir aðild að byltingunni eftir að yfirstjórn borgarinnar komst á snoðir um hana í síðustu viku. Samkvæmt heimildum Reuters var fólkinu drekkt og þau grafin í fjöldagröf fyrir utan borgina.

Þá hefur fréttaveitan heimildir fyrir því að leiðtogi uppreisnarmannanna hafi verið aðstoðarmaður Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga ISIS.

Upp komst um ráðabruggið þegar skilaboð um færslu vopna fannst á síma eins af uppreisnarmönnunum. Þetta voru meðlimir ISIS sem lögðu á ráðin.

Mosul er eitt af síðustu vígum ISIS í Írak og það stærsta. Fyrir sumarið 2014 bjuggu um tvær milljónir manna þar.

Stjórnarher Íraks vinnur nú að því að umkringja borgina en búist er við því að baráttan um Mosul verði einhver stærsta orrusta sem hefur verið háð í landinu frá innrásinni 2003.

Markmið uppreisnarmannanna var að veikja varnir borgarinnar fyrir þá orrustu. Embættismenn í Írak segja að orrustan gæti hafist í þessum mánuði.

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að orrustan gæti skapað einhverja stærstu mannréttindakrísu landsins og allt að milljón manns gæti endað á vergangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×