Sport

Kolbrún Þöll um ofurstökkið: Ég þarf bara að spenna mig aðeins betur

Ingvi Þór Sæmundsson í Maribor skrifar
Kolbrún Þöll Þorradóttir í stökkinu sínu.
Kolbrún Þöll Þorradóttir í stökkinu sínu. Mynd/Fimleiksamband Íslands
Kolbrún Þöll Þorradóttir sýndi mögnuð tilþrif í undankeppninni kvennaliða á EM í hópfimleikum á fimmtudaginn þegar hún framkvæmdi stökk á trampólíni sem ekki hafa sést áður.

Í annarri umferðinni bauð Kolbrún Þöll upp á sannkallað ofurstökk, tvöfalt heljarstökk með þremur og hálfri skrúfu. Í þriðju umferðinni framkvæmdi hún annað ofurstökk, yfirslag með þremur og hálfri skrúfu af hesti.

„Stóra stökkið [í annarri umferðinni] hefur engin kona framkvæmt áður. Ég gerði það einu sinni á Íslandi í vor til að undirbúa mig fyrir þetta mót,“ sagði Kolbrún Þöll sem ætlar að framkvæma stökkin enn betur í úrslitunum í dag og negla lendingarnar.

„Þetta gekk mjög vel en lendingin klikkaði aðeins þegar ég fór sundur með fæturna. Ég náði ekki að klára og fór með hnén í dýnuna. En ég hef oft gert þetta og það hefur gengið mjög vel. Ég þarf bara að spenna mig aðeins betur og vera einbeittari.“

En hvernig dettur henni í hug að reyna svona stökk, sem storka náttúrulögmálunum?

„Ég var búin að keppa lengi með tvær og hálfa skrúfu og langaði að bæta við það og gera meira. Það er skemmtilegra að gera eitthvað nýtt. Það er allt í lagi að taka þetta einu skrefi lengra,“ segir Kolbrún Þöll eins og ekkert sé eðlilegra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×