Fótbolti

Haraldur á leið heim?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Haraldur gæti verið á heimleið.
Haraldur gæti verið á heimleið.
Haraldur Björnsson markvörður Lilleström í Noregi gæti verið á heimleið en þetta kemur fram í viðtali við Harald í Morgunblaðinu í dag.

Haraldur lék með Val í efstu deild hér á Íslandi á árunum 2009-2012 en hefur leikið sem atvinnumaður í Noregi og Svíþjóð síðastliðin fimm tímabil. Hann segir að fjárhagsstaða Lilleström sé slæm og þó svo að vilji sé hjá báðum aðilum til áframhaldandi samstarfs þá velti mikið á því hvort liðið haldi sæti sínu í norsku úrvalsdeildinni eða ekki. Lilleström situr í fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir af norsku deildinni en Rúnar Kristinsson var þjálfari liðsins þar til honum var sagt upp fyrir skömmu.

"Ég er tilbúinn að koma til Íslands ef góður möguleiki býðst," segir Haraldur en hann hefur meðal annars verið orðaður við Stjörnuna en Valsmenn líta eflaust hýru auga til Haralds enda Haraldur uppalinn hjá þeim á Hlíðarenda.

Haraldur á að baki 1 A-landsleik auk fjölda leikja fyrir U-21 árs landsliðið. Hann var í landsliðshópnum í æfingaleikjunum gegn Finnlandi og Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum í janúar og án efa fleiri lið í Pepsi-deildinni en Valur og Stjarnan sem myndu sýna honum áhuga ef hann myndi ákveða að koma heim til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×