Körfubolti

Körfuboltakvöld: Allir í landsliðinu tala rosalega vel um hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Atli Kjartansson og strákarnir í Körfuboltakvöldi eru mjög hrifnir af Þórsaranum Tryggva Snæ Hlinasyni sem er að stíga sín fyrstu skref í Domino´s deild karla þessa dagana.

Tryggvi Snær Hlinason er 18 ára gamall og 216 sentímetrar á hæð. Síðustu mánuðir er búnir að vera viðburðarríkir fyrir strákinn sem fór á kostum með 20 ára landsliðinu í sumar, spilaði sinn fyrsta A-landsleik í haust og er nú að stíga sín fyrstu spor í úrvalsdeildinni.

„Hann átti fínan leik og var miklu betri í sókninni en í fyrsta leiknum á móti Stjörnunni,“ sagði Kjartan Atli, þáttarstjórnandi, og benti á það að Tryggvi á enn eftir að læra mikið sem leikmaður.

„Hann er ekki einu sinni byrjaður í bígerð. Hann á töluvert í land með það,“ sagði Kristinn Friðriksson.

„Við erum að setja ansi mikla kröfur á hann. Hann er bara átján ára gamall en okkur finnst hann eigi að standa undir því," sagði Hermann Hauksson.

Spænska stórliðið Valencia er sagt vera á eftir Tryggva en strákarnir eru á því að hann eigi bara að klára tímabilið hér heima.

„Hann á bara að klára allt tímabilið og mannast svolítið í körfubolta. Hann hefur burði til þess að verða frábær leikmaður. Allir í landsliðinu tala rosalega vel um hann. Þetta er rosalega hógvær strákur. Hann hefur bara gott að því að taka eitt sterkt tímabil hérna heima,“ sagði Kristinn Friðriksson.

Umræða strákana í Körfuboltakvöldi um Tryggva er í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×