Erlent

Friðarviðræðum Bandaríkjanna og Rússa slitið

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Bandaríkin hafa slitið viðræðum sínum við Rússa um að endurvekja vopnahlé í Sýrlandi. Fyrr í dag höfðu Rússar slitið samstarfi ríkjanna varðandi eyðingu plútóníums. Samband ríkjanna hefur kólnað til muna á undanförnum mánuðum.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hótaði því í síðustu viku að slíta viðræðunum ef ekki yrði dregið úr loftárásum á austurhluta Aleppo, sem uppreisnarmenn halda. Bandaríkin segja að viðræðunum hafi verið slitið þar sem Rússar hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar um að sjá til þess að hjálparstarfsmenn kæmu neyðarbirgðum til þeirra 250 þúsund manna sem halda til í borginni.

Rússar hafa verið sakaðir um að fremja mögulega stríðsglæpi í Aleppo, af Sameinuðu þjóðunum og mannréttindasamtökum.

Fyrr í dag bárust fregnir af því að stærsta sjúkrahús borgarinnar hefði verið eyðilagt í loftárás. Þrír starfsmenn sjúkrahússins létust í loftárásunum en sjúkrahúsið var rekið af samtökunum Syrian American Society.

Segja Bandaríkin ógna jafnvægi

Rússar tilkynntu í dag að þeir hafi slitið samstarfi þeirra við Bandaríkin varðandi eyðingu plútóníums. Samningurinn var samþykktur árið 2000 og endurnýjaður árið 2010 og samkvæmt honum átti hvort ríkið að eyða 34 tonnum af plútóníumi.

Hægt væri að gera um 17 þúsund kjarnorkusprengjur úr því magni.

Vladimir Putin, forseti Rússlands, sagði bandaríkin ógna jafnvægi heimsins með óvinsamlegum aðgerðum sínum gagnvart Rússlandi. Hann hefur lagt fram frumvarp þar sem skilyrði eru sett fyrir því að samkomulagið verði samþykkt aftur.

Þau skilyrði fela í sér að Bandaríkin dragi úr veru hermanna og herafla í þeim ríkjum NATO sem gengu til liðs við bandalagið eftir 1. september árið 2000 og að allar viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gegn Rússlandi verði afnumdar og Rússar fái greiddar bætur vegna þeirra.

Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hafa beitt Rússa þvingunum vegna innlimunar Krímskaga og aðgerða þeirra í austurhluta Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×