Fótbolti

Varaforseti FIFA: Gott fyrir fótboltann að senda HM til Rússlands og Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Montagliani.
Victor Montagliani. Vísir/EPA
Victor Montagliani, varaforseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, hefur kannski öðruvísi skoðanir á umdeildu máli en flestir. Svo halda menn kannski þar til að þeir kynna sér málið vetur. Þetta er nefnilega spurning um sjónarhorn.

Spillingarmálin hafa farið illa með FIFA síðustu mánuði og hafa bæði kallað fram nýja menn í forystu sem og nýjar vinnuaðferðir innanhúss.

Eitt það umdeildasta var að leyfa Rússlandi og Katar að halda næstu tvær heimsmeistarakeppnir. Montagliani er hinsvegar á því að það sé eitt það besta sem gerðist fyrir FIFA.

Rússland og Katar fengu heimsmeistaramótin í desember 2010 en Montagliani lítur á það sem svo að sú ákvörðun hafi komið hlutnum á hreyfingu. Margir hafa hneykslast á því að þjóðir hafa getað „keypt“ sér HM en það er líka hægt að sjá jákvæðu hliðarnar á þeirri ákvörðun. Montagliani velur það sjónarhorn.

„Ég tel að þetta hafi gert útslagið. Ef Rússland og Katar hefðu ekki fengið þessar heimsmeistarakeppnir þá værum við ekki í þeirri stöðu að geta hreinsað til í fótboltanum. Ef England hefði fengið HM þá hefði kannski ekkert breyst,“ sagði Victor Montagliani við BBC.

„Kannski var það besta sem gerðist fyrir fótboltann að senda HM til Rússlands og Katar,“ sagði Victor Montagliani. Montagliani hefur verið forseti Concacaf, Knattspyrnusambands Norður- og Mið-Ameríku, síðan í maí.

Spillingin hefur verið hvað mest innan hans álfusambands. Forverar hans í formannsstólnum, Jeffrey Webb og Alfredo Hawit, voru báðir settir í bann eftir rannsókn á spillingu innan veggja FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×