Körfubolti

Pavel: Það var kominn tími á smurningu

Eiríkur Stefán Ásgiersson skrifar
Nýtt keppnistímabil hefst í Domino's-deild karla í næstu viku og ætlar Pavel Ermolinskij að fara inn í veturinn af fullum krafti eftir að hafa fengið góða hvíld í sumar.

Pavel hefur lítið getað æft með KR í sumar vegna meiðsla og missti af þeim sökum af öllum leikjum íslenska landsliðsins í haust, er það tryggði sér þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í körfubolta, í annað skiptið í röð.

Pavel hefur leikið sem atvinnumaður á Spáni, Frakklandi og Svíþjóð en verið allan sinn meistaraflokksferil með KR hér á landi. Hann hefur verið lykilmaður í Íslandsmeistaraliðum KR síðastliðin þrjú ár og fann fyrir þreytu eftir síðasta tímabil.

„Staðan er góð en það var kominn tími á smurningu á bílinn eftir ansi marga kílómetra,“ sagði Pavel í samtali við íþróttadeild í dag.

„Ég gaf mér tíma í sumar til að vinna á mörgum kvillum sem hafa hrjáð mig í gegnum tíðina. Ég þurfti bara smá hvíld og það hefur skilað sér. Mér líður vel í skrokknum, ég ætla að koma mér af stað og standa mig í vetur.“

Hann segist finna fyrir mikilli persónulegri þörf til að skara fram úr sem einstaklingur á nýjan leik, eftir að hafa sett hag liðsins í forgrunn síðastliðin ár. Og áhuginn hefur ekki farið minnkandi, þvert á móti.

„Alls ekki. Áherslan síðastliðin ár hefur verið að KR standi sig vel og það hefur skilað árangri. Ég hef verið dæmdur út frá árangri liðsins en að sama skapi hef ég fundið að persónulega frammistaða mín hefur dvínað aðeins. Ég hlakka til að sýna mitt rétta andlit á nýjan leik og standa mig vel.“

Nánar verður rætt við Pavel í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×