Skoðun

Brothætt byggð?

Starri Reynisson skrifar

Brothætt byggð? Hendum bara niður álveri!“ hefur verið byggðastefna (ef byggðastefnu má kalla) allra flokka sem setið hafa í ríkisstjórn síðustu áratugi (já, líka VG). Þessi stóriðjustefna hefur engu skilað nema ótal láglaunastörfum og einsleitu atvinnulífi hringinn í kringum landið. Hún kostar líka gífurlega fjármuni. Landsvirkjun skuldsetur sig upp fyrir haus til þess að byggja virkjanir sem sjá stóriðjunni fyrir rafmagni langt undir markaðsverði og ofan á það fá stóriðjufyrirtækin miklar skattaívilnanir. Svo skila þau sáralitlum gróða til íslensks samfélags, hvort sem er ríkissjóðs eða sveitarfélaga. Rökstuðningurinn fyrir þessu er svo að það sé mikilvægt að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og að stóriðja sé forsenda allrar uppbyggingar á landsbyggðinni.

Þeir stjórnmálamenn sem tala hvað mest og hvað hæst um mikilvægi fjölbreytts atvinnulífs virðast sjálfir almennt ekki botna neitt í merkingu þessara orða. Þegar þeir tala um fjölbreytt atvinnulíf eru þeir yfirleitt að meina að það þurfi að vera störf bæði í sjávarútvegi og stóriðju í boði. Það er náttúrlega nauðsynlegt að fólk geti valið á milli og ef bara annar af þessum kostum væri í boði væri atvinnulífið augljóslega allt of einsleitt. Þetta er vægast sagt ofureinföldun og margt sem bendir til þess að þeir séu hreinlega að nota orðið fjölbreytni sem einhvers konar fallegt forskeyti, skraut til þess að breiða yfir stefnuleysi í atvinnuuppbyggingu og byggðamálum.

Sannleikurinn er sá að þetta er miklu flóknara og yfirgripsmeira. Uppbygging í tveimur atvinnugreinum, hvaða atvinnugreinar sem það eru, getur ekki talist fjölbreytni. Fjölbreytt atvinnulíf þarfnast hálaunastarfa, láglaunastarfa, starfa fyrir menntað fólk, starfa fyrir ómenntað fólk og allt þar á milli. Fjölbreytt atvinnulíf þarf nýsköpun, listgreinar, sjávarútveg, landbúnað, verslunarrekstur, hreingerningastafsemi, heilbrigðisstarfsemi og helling af alls konar öðru. Fjölbreytni er nefnilega fleira en bara tvennt, fjölbreytni er fullt.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×