Sport

Simone Biles og Williams-systur urðu fyrir barðinu á rússneskum tölvuþrjótum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simone Biles vann til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó í síðasta mánuði.
Simone Biles vann til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó í síðasta mánuði. vísir/getty
Upplýsingum um þekktar bandarískar íþróttakonur var lekið á netið í dag.

Hópur sem kallar sig Fancy Bears lýsti sig ábyrgan fyrir árásinni en rússnesku tölvuþrjótarnir brutust inn í gagnabanka Wada, Alþjóðalyfjaeftirlitsins, og stálu þaðan trúnaðarupplýsingum um bandarískt íþróttafólk.

Talið er að árásin á gagnabanka Wada sé eins konar hefndaraðgerð fyrir svarta skýrslu Wada um stórfellda og skipulagða lyfjamisnotkun í Rússlandi. Í kjölfarið var rússnesku frjálsíþróttafólki meinuð þátttaka á Ólympíuleikunum í Ríó.

Í yfirlýsingu frá Fancy Bears kemur fram að fjölmargir bandarískir íþróttamenn hafi notað lyf sem eru á bannlistum, og fengið leyfi til þess frá læknum.

Fimleikadrottningin Simone Biles, sem vann til fernra gullverðlauna í Ríó í síðasta mánuði, var ein þeirra sem varð fyrir barðinu á tölvuþrjótunum en þeir sökuðu hana um að taka ólögleg geðlyf.

Biles greindi frá því á Twitter í kvöld að hún væri með ADHD, tæki inn lyf við því og hefði alltaf farið eftir settum reglum.

Trúnaðarupplýsingum um tennissysturnar, Serena og Venus Williams, og körfuboltakonan Elena Delle Donne var einnig lekið á netið.

Talsmaður rússneskra yfirvalda, Dmitry Peskov, þvertók í dag fyrir það að yfirvöld eða leyniþjónustan í Rússlandi hefði eitthvað með árásina að gera.

Wada og Alþjóðaólympíunefndin hafa fordæmt árásina en Wada segir að tilgangurinn með henni sé að grafa undan stofnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×