Handbolti

Úr Hafnarfirðinum í Vesturbæinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Berg og Björgvin Vilhjálmsson, formaður handknattleiksdeildar KR, handsala samninginn.
Andri Berg og Björgvin Vilhjálmsson, formaður handknattleiksdeildar KR, handsala samninginn. mynd/kr
Andri Berg Haraldsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild KR. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Andri Berg, sem er 33 ára miðjumaður og skytta, hefur lengst af leikið með FH en var látinn fara þaðan eftir síðasta tímabil.

„Stjórn handknattleiksdeildarinnar er virkilega ánægð með að hafa gengið frá samningi við Andra Berg. Andri er góður alhliðaleikmaður sem á eftir að reynast okkur vel á komandi vetri. Þetta staðfestir það að leikmenn hafa trú á þeirri vegaferð sem handknattleiksdeild KR er á,“ segir Björgvin Vilhjálmsson, formaður handknattleiksdeildar KR, í fréttatilkynningunni.

Andri Berg kveðst einnig ánægður með að vera kominn í svarthvítu treyjuna.

„Ég er virkilega ánægður með að vera kominn í Vesturbæinn. Það eru spennandi tímar framundan hjá KR í handboltanum og mikil áskorun fyrir mig sem leikmann að taka þátt í þessu verkefni,“ sagði Andri Berg.

KR endaði í áttunda og neðsta sæti 1. deildar í fyrra. KR ætlar sér stærri hluti í vetur en Ágúst Jóhannsson, fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðsins, tók við liðinu í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×