Erlent

Segir Tyrki og Bandaríkin íhuga árás á Raqqa

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan.
Recep Tayyip Erdogan. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir mögulegt að Tyrkland og Bandaríkin muni vinna saman að því að reka vígamenn Íslamska ríkið frá höfuðvígi þeirra í Sýrlandi. Erdogan og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ræddu þennan möguleika á fundi þeirra á G20 ríkjanna í Kína í morgun.

Erdogan sagði Tyrki vera tilbúna til slíkra aðgerða.

Fjölmiðlar í Tyrklandi hafa eftir Erdogan að hermenn Tyrklands og Bandaríkjanna ættu að hittast og undirbúa sameiginlegar aðgerðir þeirra varðandi Raqqa.

Tyrkir gerðu í raun innrás í Sýrland í síðasta mánuði þar sem þeir sendu skriðdreka og sérsveitarmenn með uppreisnarmönnum inn í landið. Sú aðgerð hafði tvö markmið. Það var að stöðva framsókn sýrlenskra Kúrda og bandamanna þeirra með landamærum Tyrklands í norðanverðu Sýrlandi og að herja á vígamenn ISIS við landamærin.

Upphaflega kvörtuðu þó meðal annars Bandaríkin yfir því að Tyrkir virtust eingöngu berjast gegn Kúrdum, sem þeir líta á sem anga af Verkamannaflokki Kúrda í Tyrklandi, PKK. Verkamannaflokkurinn er talinn vera hryðjuverkasamtök og Tyrkir segja sýrlenska Kúrda og bandamenn þeirra, SDF, sem studdir eru af Bandaríkjunum, einnig vera hryðjuverkasamtök.

SDF og Tyrkir sömdu hins vegar fljótt um vopnahlé, með aðkomu Bandaríkjanna.

Tyrkir hafa nú rekið ISIS frá landamærum sínum en Nurettin Canikli, aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, hefur sagt að þeir myndu ef til vill sækja lengra inn í Sýrland. Hann sagði að 110 vígamenn ISIS og meðlimir SDF hefðu verið felldir í aðgerðum Tyrklands í Sýrlandi.






Tengdar fréttir

Tyrkir senda skriðdreka til Sýrlands

Yfirvöld í Tyrklandi hafa heitið því að hreinsa landamæri sín af vígamönnum ISIS og „öðrum hryðjuverkamönnum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×