Erlent

Vopnahlé í Sýrlandi á sunnudaginn

Samúel Karl Ólason skrifar
John Kerry og Sergei Lavrov í Genf.
John Kerry og Sergei Lavrov í Genf. Vísir/AFP
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utarnríkisráðherra Rússlands, segja að vopnahlé á milli uppreisnarmanna og stjórnarhers Sýrlands muni hefjast á miðnætti á sunnudagskvöld. Vopnahléið er sagt ná til ákveðinna svæða um allt Sýrland en Íslamska ríkið er undanskilið og sömuleiðis Jabat al-cham, áður Nusra front, deild al-Qaeda í Sýrlandi.

Haldi vopnahléið í sjö daga munu Rússar og Bandaríkin sameiginlegar aðgerðir gegn ISIS og Nusra.

Á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra sagðist Kerry vonast til þess að vopnahléið gæti leitt til friðar í Sýrlandi. Hann sagði yfirvöld Bandaríkjanna hafa trú á því að Rússar gætu fengið stjórnarherinn til að stöðva átökin. Báðar fylkingar þurfa þó að „standa við skuldbindingar sínar,“ eins og hann orðaði það.

Kerry sagði uppreisnarmenn tilbúna til að fylgja friðaráætluninni, ef stjórnvöld Sýrlands sýni að þeim sé alvara. Sömuleiðis sagði Lavrov að yfirvöld Rússlands hefðu tilkynnt stjórnvöldum Sýrlands um samkomulagið. Þeir væru tilbúnir til að standa við sitt.

Samkomulagið felur einnig í sér að umsátrum víðsvegar um Sýrland verði létt og mannúðarsamtökum veittur aðgangur að þeim svæðum.

Lavrov sagði ljóst að einhverjir aðilar í Sýrlandi myndu reyna að grafa undan samkomulaginu, en báðir tóku þeir fram að vopnahléið gæti leitt til sátta og lausnar á ástandinu í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×