Erlent

Fyrirtæki í eigu Trump skulda yfir 76 milljarða

Birta Svavarsdóttir skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty
Fyrirtæki í eigu Donald Trump, forsetaefnis Repúblikana í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum, skulda samtals yfir 76 milljarða íslenskra króna. Trump hefur í kosningabaráttu sinni farið mikinn í að tala um eigið ágæti sem viðskiptamaður og segist á ferli sínum hafa grætt milljónir dollara og sé fullkomlega laus við skuldir. Fjallað er ítarlega um málið í rannsókn á vegum New York Times sem birtist í gær.

Rannsókin leiddi einnig í ljós að meðal fjárfesta í fyrirtækjum Trump eru stofnanir sem hann hefur opinberlega talað gegn í kosningabaráttu sinni. Þar mætti helst nefna Seðlabanka Kína, sem Trump hefur sagt vera eina stærstu ógn sem stafi að fjármálaumhverfi Bandaríkjanna í dag, og Goldman Sachs, fjárfestingabanka sem hann hefur ásakað um að stjórna mótframbjóðanda sínum, Hillary Clinton.

Þá kemur einnig fram að mikil leynd ríki yfir persónulegum fjármálum Trump. Til dæmis hefur forsetaframbjóðandinn neitað að gefa upp eigið skattframtal, og einnig lagst gegn því að hlutlaus aðili meti eignir hans.

Sem forseti myndi Trump hafa talsverð völd þegar kæmi að fjármála- og skattalöggjöf Bandaríkjanna, en þannig gæti hann haft bein áhrif á eigið viðskiptaveldi. Þá gæti hann einnig haft áhrif á lög sem tengjast beint hans eigin fé, sem og eiga í samskiptum við lönd sem hann á í persónulegu viðskiptasambandi í.


Tengdar fréttir

Trump vill Kalda stríðs kannanir

Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, vill láta kanna skoðanir allra innflytjenda til Bandaríkjanna til að útiloka að þeir séu hlynntir hryðjuverkasamtökum eða hafi fjandsamleg viðhorf í garð Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×