Erlent

Segjast nærri því að reka ISIS frá Sirte

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Líbískar sveitir segjast nærri því að reka vígamenn Íslamska ríkisins frá borginni Sirte. Hún hefur verið helsta vígi hryðjuverkasamtakanna í norður Afríku frá því hún féll í fyrra. Átökin um borgina hafa staðið yfir í um þrjá mánuði og hafa Bandaríkin stutt við sveitirnar sem eru hliðhollar stjórnvöldum með loftárásum.

Nú í gær missti ISIS tökin á stærstu mosku borgarinnar og húsnæði sem siðferðislögregla samtakanna hafði notað sem fangelsi. Samkvæmt Reuters fréttaveitunni féllu minnst níu stjórnarhermenn og 85 særðust í sókn helgarinnar.

Þá eru tugir vígamanna ISIS sagðir hafa fallið.

Ríkisstjórn Líbíu, sem samþykkt er af Sameinuðu þjóðunum, segist ætla að láta herinn sjá um stjórn Sirte um nokkurt skeið eftir að hann verður frelsaður frá ISIS. Herinn muni sjá um að lífið færist aftur í fyrra horf fyrir íbúa borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×