Körfubolti

Ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá Jón Arnór heim

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag leikur Bandaríkjamaðurinn Michael Craion ekki með KR á næsta tímabili þar sem hann er á förum til Frakklands.

KR-ingar, sem eru Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára, hafa því misst tvo lykilmenn í sumar en Helgi Már Magnússon hefur sem kunnugt er lagt skóna á hilluna.

KR-ingar eru þó hvergi af baki dottnir og róa nú öllum árum að því að fá landsliðsmanninn Jón Arnór Stefánsson heim í Vesturbæinn.

„Það er stór íslenskur biti sem er væntanlega á markaðnum en það skýrist í vikunni,“ sagði Böðvar Guðjónsson, formaður meistaraflokksráðs KR, í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það er KR-ingurinn Jón Arnór Stefánsson og það er augljóst að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hann skrifi undir samning við okkur,“ sagði Böðvar ennfremur.

Jón Arnór hefur leikið sem atvinnumaður erlendis frá 2002, ef frá er talið tímabilið 2008-09 þegar hann kom heim og varð Íslandsmeistari með KR.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×