Sport

Blaktvíburarnir söðla um

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristján í landsleik.
Kristján í landsleik. mynd/a&r photos/blaksambandið
Tvíburabræðurnir Kristján og Hafsteinn Valdimarsson eru báðir á förum frá Danmörku og á leið til sitt hvors landsins.

Kristján er búinn að semja við norska liðið BK Tromsö sem hefur verið að berjast við toppinn í Noregi.

Kristján fór út til Danmerkur fyrir sjö árum ásamt tvíburabróður sínum, Hafsteini. Þá léku þeir í tvö ár saman hjá Álaborg. Kristján spilaði svo með Marienlyst í þrjú ár en hefur síðustu tvö ár spilað með Middelfart.

Hafsteinn er á leið í Úrvalsdeildina í Austurríki. Hafsteinn hefur gert tveggja ára samning við URW. Hafsteinn hefur líkt og bróðir sinn spilað í dönsku úrvalsdeildinni í 7 ár. Fyrstu tvö árin var hann leikmaður HIK Aalborg en hefur undanfarin 5 tímabil spilað með Marienlyst með frábærum árangri. Liðið vann deildina tvisvar og bikarkeppnina fjórum sinnum og varð liðið einu sinni Norðurlandameistari í tíð Hafsteins. Tvisvar var Hafsteinn valinn í lið ársins í Danmörku sem miðjumaður (tímabilin 2013-2014 og 2015-2016).

Nýja lið Hafsteins heitir Union Volleyball Raiffesen Arbesbach (eða URW) og spilar í Úrvalsdeildinni í Austurríki. Liðið endaði í þriðja sæti á síðasta leiktímabili og ætlar sér enn stærri hluti í ár. Liðið spilar í áskorendakeppni Evrópu (CEV Challenge Cup) en það er í fyrsta sinn sem Hafsteinn mun leika í Evrópukeppni félagsliða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×