Erlent

Ætla sér að einangra ISIS í Raqqa og Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi varnarmálaráðherranna í dag.
Frá fundi varnarmálaráðherranna í dag. Vísir/AFP
Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa á dögunum fundað um hvernig þeir geti sigrað Íslamska ríkið í Sýrlandi og Írak. Til stendur að einangra vígamenn samtakanna í Raqqa í Sýrlandi og í Mosul í Írak. Josh Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ítrekaði við blaðamenn í kvöld að ósigur ISIS í Sýrlandi og Írak myndi ekki binda endi á hugmyndafræði þeirra né möguleika þeirra á að gera árásir í heiminum.

Varnarmálaráðherra rúmlega 30 bandalagsríkja funduðu í Bandaríkjunum og ræddu einnig um það hvernig hægt væri að koma aftur á stöðugleika á þeim svæðum sem samtökin hafa stjórnað. Íslamska ríkið hefur tapað verulegum hluta af svæði sínu í bæði Sýrlandi og í Írak.

Í Írak hafa ISIS-liðar tapað rúmlega helmingi af því svæði sem þeir stjórnuðu.

Carter sagði að ræddar hefðu verið áætlanir til að sigra ISIS varanlega. Lokahnykkurinn yrði að frelsa Raqqa og Mosul. Írakski herinn sækir nú hægt fram gegn ISIS við Mosul, en Carter segir að undirbúningur fyrir lokaárásina gegn borginni muni taka langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×