Körfubolti

Haukur Helgi samdi við franskt lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson í leik með Njarðvík í fyrra.
Haukur Helgi Pálsson í leik með Njarðvík í fyrra. vísir/ernir
Haukur Helgi Pálsson hefur gert samning við franska liðið Rouen og mun því ekki spila með Njarðvíkingum í Domino´s deild karla í körfubolta á komandi tímabili. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Njarðvík.

Haukur Helgi var búinn að endurnýja samning sinn við Njarðvík en í honum var klásúla um að hann gæti samið við erlent félag.

Haukur Helgi var valinn besti leikmaður Domino´s deildar karla á síðustu leiktíð en hann var þá með 17,9 stig, 7,5 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur óskar Hauki Helga til hamingju með nýja samninginn og þakkar honum einnig fyrir þann tíma sem hann starfaði hjá félaginu. Haukur var frábær liðsmaður bæði innan sem utan vallar, ljóst er því að mikil eftirsjá verður af honum. Við vorum að honum vegni sem best í Frakklandi en vonumst eftir að fá hann aftur í grænt í framtíðinni," segir í fréttatilkynningu frá Njarðvík.

Bæði Reykjanesbæjarliðin hafa því misst landsliðsmenn með svipuðum hætti því Hörður Axel Vilhjálmsson var búinn að gera samning við Keflavík þegar hann fékk tilboð frá Grikklandi.

Haukur Helgi er 24 ára gamall framherji sem vakti mikla athygli fyrir flotta frammistöðu sína á Eurobasket í Berlín 2015. Hann er lykilmaður í íslenska körfuboltalandsliðinu

Rouen verður fimmta atvinnumannafélagið sem Haukur Helgi Pálsson spilar með en hann hefur einnig verið hjá spænsku liðunum Manresa, Breogán og Baskonia sem og sænska liðinu  LF Luleå.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×