Sport

Sigurvegari heimsleikanna fær skammbyssu í verðlaun

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir vann CrossFit leikana í fyrra en Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir lenti í þriðja sæti. Vinni önnur hvor þeirra í ár mun hún græða Glock skammbyssu.
Katrín Tanja Davíðsdóttir vann CrossFit leikana í fyrra en Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir lenti í þriðja sæti. Vinni önnur hvor þeirra í ár mun hún græða Glock skammbyssu. mynd/crossfit games
Það að standa uppi sem sigurvegari heimsleikanna í CrossFit þýðir ekki aðeins að fjárhagur sigurvegarans vænkast heldur fær hann einnig skammbyssu að launum. Heimsleikarnir fara fram dagana 19.-24. júlí næstkomandi.

Í tilkynningu á Facebook-síðu heimsleikanna, sem birtist í gær kemur fram að sigurvegarar í karlaflokki og kvennaflokki, auk allra þeirra sem skipa liðið sem vinnur liðakeppnina, fá skammbyssu frá Glock að launum. Hún er til viðbótar við verðlaunaféð og ýmsan annan varning sem eru í sigurlaun. Byssuframleiðandinn er einn styrktaraðila mótsins.

Margir hafa látið skoðun sína á auglýsingunni í ljós. Ýmsir benda á stöðuna sem er upp í Bandaríkjunum varðandi byssueign almennings. Aðrir hafa áhyggjur af því að vinni einhver leikana sem er ekki búsettur í Bandaríkjunum muni sá lenda í basli með að koma byssunni heim til sín. Enn aðrir segja að stofnandi CrossFit hafi verið í sjóhernum og þetta sé því nokkuð viðeigandi.

Sex íslenskir keppendur taka þátt í einstaklingskeppni á heimsleikunum auk liðs CrossFit XY. Meðal keppenda í kvennaflokki er ríkjandi heimsmeistari, Katrín Tanja Davíðsdóttir, og fyrrverandi heimsmeistarinn Annie Mist Þórisdóttir. Ljóst er að ef íslenskur keppandi stendur uppi sem sigurvegari þá mun hann eiga í basli með að koma með vopnið inn í landið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×