Handbolti

Guðmundur Helgi eftirmaður mánaðarþjálfarans hjá Fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elmar Hallgríms Hallgrímsson nýr formaður handknattleiksdeildar sést hér á myndinni  handsala samninginn við Guðmund Helga Pálsson.
Elmar Hallgríms Hallgrímsson nýr formaður handknattleiksdeildar sést hér á myndinni handsala samninginn við Guðmund Helga Pálsson. Mynd/Handknattleiksdeild Fram
Guðmundur Helgi Pálsson var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs Fram í handbolta og gerði þriggja ára samning við Safamýrarliðið.

Guðmundur Helgi tekur eiginlega við Framliðinu af tveimur þjálfurum eða þeim Reyni Þór Reynissyni og Guðlaugi Arnarsyni. Reynir Þór var reyndar bara þjálfari Fram í 38 daga þrátt fyrir að hafa gert tveggja ára samning um miðjan maí.

Reyni Þór skrifaði undir tveggja ára samning 20. maí en hann og Handknattleiksdeild Fram komust síðan að samkomulagi 27. júní að Reynir hætti sem þjálfari liðsins. Reynir óskaði eftir því að stíga til hliðar.

Guðlaugur Arnarsson tók við Framliðinu í apríl 2013 og var að klára sitt þriðja tímabil með liðið á nýlokinni leiktíð.

Þetta er þó fyrsti þjálfarinn sem Elmar Hallgríms Hallgrímsson, nýr formaður handknattleiksdeildar Fram, ræður til starfa hjá meistaraflokki Fram því bæði formaður og þjálfari Fram hættu í sumar.

Guðmundur Helgi Pálsson þekkir vel til í Safamýrinni en hann lék með Fram á árum 1995 til 2002. Guðmundur varð bikarmeistari með Fram árið 2000 en lagði skóna á hilluna vorið 2002.

Guðmundur hefur síðan komið að þjálfun bæði með ÍR og HK og hefur því töluverða reynslu að þjálfun í efstu deild.  

„Það er mikið fagnaðarefni að fá Guðmund Helga aftur til okkar í Safamýrina og bindum við miklar vonir við hans starf á næstu árum," segir í frétt á heimasíðu Fram. Nú er bara að vona að hann endist lengur í starfi en forveri hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×