Erlent

John Kerry á leið til Moskvu

Samúel Karl Ólason skrifar
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun fljúga til Moskvu á fimmtudaginn. Þar mun hann leitast eftir því að koma á samstarfi við Rússa í baráttunni við Íslamska ríkið. Háttsettir meðlimir Bandaríkjanna eru hins vegar andvígir því og segja markmið Bandaríkjanna í Sýrlandi, ekki vera í samræmi við markmið Rússlands.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni er þetta þriðja ferðalag Kerry til Moskvu á tólf mánuðum. Samband Bandaríkjanna og Rússlands hefur farið versnandi undanfarin ár. Innlimun Rússlands á Krímskaga hefur valdið vandræðum sem og átökin í austurhluta Úkraínu.

Bandaríkin ráku tvo rússneska erindreka úr landi í síðasta mánuði. Það var gert eftir að Bandaríkin höfðu sakað rússneskan lögregluþjón um að ráðast á bandarískan erindreka í Moskvu

Augljóst er að markmið Rússa og Bandaríkjanna eru ekki þau sömu í Sýrlandi. Rússar vilja að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands og bandamaður Rússlands til langs tíma, verði áfram við stjórnvölinn í Sýrlandi. Assad hefur verið sakaður um mikla grimmd gegn fólki sínu og beitti hann til dæmis efnavopnum gegn mótmælendum í upphafi borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi.

Bandaríkin, bandamenn þeirra og þá sérstaklega Sádar, vilja velta honum úr sessi. Talsmaður utanríkisráðuneytisins segir að tilgangur ferðar Kerry til Moskvu sé að reyna enn einu sinni að selja Rússum áætlanir um að koma á friði í Sýrlandi.

Kerry er sagður ætla að bjóða Rússum upplýsingar um staðsetningar vígamanna ISIS og Nusra Front, deildar al-Qaeda í Sýrlandi. Í staðinn vill hann að Rússar og stjórnarher Sýrlands hætti að gera loftárásir á uppreisnarhópa sem hafi þegar skrifað undir vopnahlé, sem tæknilega er í gildi í landinu.

Stríðið í Sýrlandi hefur staðið yfir í um fimm og hálft ár og samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa um 400 þúsund manns látið lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×