ISIS, eða öðru nafni Daesh, lýsti ekki yfir ábyrgð á árásinni í Nice í daglegum útvarpspistli sínum á Al-Bayan útvarpsstöðinni, í raun var ekkert minnst á árásirnar. Vörubíll ók inn í stóran hóp af fólki sem samankomið var á Promenade des Anglais í tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka. 84 í það minnsta eru látnir.
Al-Bayan útvarpsstöðinni er stýrt af hryðjuverkasamtökunum og hefur verið notuð í gegnum tíðina til þess að lýsa yfir ábyrgð á hryðjuverkaárásum á Vesturlöndum. Þó er algengara að „fréttamiðillinn“ Amaq hafi verið nýttur í því skyni.
BBC segir þó að ekki sé hægt að túlka þögn útvarpsins á þann veg að minni líkur séu á að Daesh muni lýsa yfir ábyrgð síðar meir. Árásarmaðurinn virðist hafa verið einn að verki en ekki er vitað hvort hann hafi átt einhverja samverkamenn eða hvað honum gekk til. Lögregla rannsakar málið.
