Körfubolti

Jón Axel og Tryggvi fóru á kostum í mögnuðum sigri á Rússum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jón Axel í leik gegn KR í vor.
Jón Axel í leik gegn KR í vor. Mynd/Vísir
Íslenska landsliðið skipað leikmönnum undir 20 ára vann frækinn sigur á Rússlandi á EM U20 sem fer fram í Grikklandi þessa dagana.

Eftir að hafa lent sextán stigum undir í fyrsta leikhluta náðu íslensku leikmennirnir að snúa leiknum sér í hag.

Íslenska liðið virtist ætla að fá skell í fyrsta leikhluta en Rússarnir voru einfaldlega skrefinu á undan og leiddu 25-9 að fyrsta leikhluta loknum.

Það virist vekja strákana til lífsins þar sem þeir svöruðu með frábærum öðrum leikhluta og minnkuðu muninn niður í þrjú stig fyrir lok fyrri hálfleiks 31-34.

Rússarnir náðu um tíma ellefu stiga forskoti í þriðja leikhluta en þá tók Jón Axel Guðmundsson einfaldlega leikinn yfir.

Setti hann 18 af 20 stigum Íslands í þriðja leikhluta og jafnaði leikinn 51-51 þremur sekúndum fyrir lok þriðja leikhluta.

Rússarnir leiddu framan af í lokaleikhlutanum en taugar íslenska liðsins reyndust sterkari á lokasprettinum.

Náði íslenska liðið forskotinu um miðbik leikhlutans og að halda forskotinu allt til loka leiksins en leiknum lauk með sex stiga sigri íslenska liðsins eftir að Kári Jónsson gulltryggði sigurinn af vítalínunni.

Jón Axel fór á kostum í sóknarleik íslenska liðsins og lauk leik með 32 stig ásamt því að taka 11 fráköst en Tryggvi Hlínarson átti einnig frábæran leik með 11 stig og 19 fráköst í íslenska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×