Körfubolti

Strákarnir fylgdu eftir sigrinum á Rússum með sigri á Eistlandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Pétur Birgisson var einn af betri leikstjórnendum deildarinnar á síðustu leiktíð.
Pétur Birgisson var einn af betri leikstjórnendum deildarinnar á síðustu leiktíð. Vísir/Anton
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum undir 20 ára aldri vann annan leikinn í röð á EM U20 sem fer fram í Grikklandi í dag 75-72 en íslenska liðið leiddi allt frá fyrsta leikhluta.

Eistneska liðið byrjaði leikinn betur og leiddi fyrstu mínútur leiksins en eftir því sem leið á fyrsta leikhluta tókst strákunum að ná betri tökum á leiknum.

Íslensku strákarnir héldu áfram að stjórna leiknum þrátt fyrir að verða undir í frákastabaráttunni og leiddu 45-37 í hálfleik.

Íslenska liðið hélt góðu forskoti í þriðja leikhluta og tók þrettán stiga forskot inn í lokaleikhlutann en eistnesku leikmennirnir voru ekki á því að gefast upp.

Eistneska liðið náði að herða varnarleikinn í lokaleikhlutanum og minnka forskotið niður í tvö stig en tíminn reyndist of naumur og fögnuðu strákarnir naumum sigri að lokum.

Pétur Birgisson var atkvæðamestur í íslenska liðinu með 19 stig en Kári Jónsson bætti við 14 stigum.

Íslenska liðið varð undir í frákastabaráttunni 33-55 undir körfunni en vann það upp með aðeins tíu töpuðum boltum og fimmtán stolnum.

Ísland leikur lokaleik sinn í riðlinum á miðvikudaginn þegar liðið mætir Póllandi en íslenska liðið er í toppsæti B-riðilsins eins og staðan er núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×