Erlent

Baulað á forsætisráðherra Frakka við minningarathöfn vegna fórnarlamba árásarinnar í Nice

Birgir Olgeirsson skrifar
Manuel Valls, til vinstri, við minningarathöfnina.
Manuel Valls, til vinstri, við minningarathöfnina. Vísir/EPA
Baulað var á forsætisráðherra Frakka, Manuel Valls, þegar hann var viðstaddur minningarathöfn vegna fórnarlamba árásarinnar í Nice á fimmtudag. Áttatíu og fjórir fórust í árásinni þegar ódæðismaðurinn ók vörubíl inn í hóp fólks sem fylgdist með flugeldasýningu í tilefni af þjóðhátíðardegi Frakka.

Mótmælendur kölluðu Valls morðingja og kröfðust afsagnar hans áður en mínútu þögn hófst til að minnast þeirra sem létust.

Nicolas Sarkozy, leiðtogi UMP-flokksins í Frakklandi, hefur sakað frönsk stjórnvöld um að brugðist algjörlega við að tryggja öryggi Frakka. Hefur Sarkozy jafnframt hvatt til þess að öllum innflytjendum með tengsl við herskáa íslamista verði vísað úr landi.

Innanríkisráðherra Frakka, Bernard Cazeneuve, hefur gefið út að rannsókn yfirvalda á árásinni hafi ekki leitt í ljós tengsl árásarmannsins Mohamed Lahouaiej Bouhlel við hryðjuverkasamtök. Þó hryðjuverkasamtökin ISIS hafi lýst yfir ábyrgð á árásinni þá segir Cazeneuve að það þýði ekki að Lohouaiej-Bohulel hafi skipulagt árásina með ISIS.

Margir þeirra sem létust voru börn sem fylgdust með flugeldasýningunni og er fjöldi enn á sjúkrahúsi. 


Tengdar fréttir

ISIS lýsa yfir ábyrgð á árásinni í Nice

Á meðal þeirra handteknu er fyrrverandi eiginkona árásarmannsins Mohamed Lahouaiej- Bouhel, sem var 31 árs gamall karlmaður með ríkisfang í Túnis og í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×