Flugumferðarstjórar felldu nýgerða kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins (SA) f.h. Isavia í kosningu félagsmanna sem lauk í nótt.
60,2 prósent þeirra sem kusu sögðu nei en 39,8 prósent sögðu já. Níutíu prósent félagsmanna tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.
Í samtali við Vísi segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sýni að félagsmenn séu ekki sáttir með kjarasamningana.
„Félagsmenn eru greinilega ekki sáttir og telja að sú kauphækkun sem samið var um hafi verið of dýru verði keypt,“ segir Sigurjón.
Skrifað var undir kjarasamningana í lok júní eftir harðar kjaradeilur þar sem flugumferðastjórar beittu yfirvinnubanni sem hafði í för með sér nokkra röskun á flugumferð á Keflavíkurflugvelli. Fór svo að Alþingi setti lög á yfirvinnubannið en þau kváðu á um að gerðardómi yrði gert að ákveða um kaup og kjör flugumferðarstjóra.
Sigurjón reiknar nú með að deilan muni fara fyrir gerðardóm sem muni ákvarða um kaup kjör flugumferðarstjóra eigi seinna en 18. júlí næstkomandi.
„Ég hef ekki heyrt í viðsemjendum okkar en ef að það verður ekki sest niður og samið upp á nýtt og samið hratt þá endar það í gerðardómi,“ segir Sigurjón.
Flugumferðarstjórar felldu nýgerða kjarasamninga

Tengdar fréttir

Alþingi samþykkti lög á kjaradeilu flugumferðarstjóra
32 atkvæði voru greidd með frumvarpinu og 13 atkvæði gegn.

Flugumferðarstjórar hissa á skorðum sem Gerðardómi eru settar
Ósáttir með lagasetningu á aðgerðir þeirra en vona að samningar takist fyrir 24. júní.

Flugumferðarstjórar og Samtök atvinnulífsins hafa samið
Flugumferðarstjórar hafa verið í yfirvinnubanni síðan í apríl.