Lífið

Tveimur konum bætt við dagskrá Þjóðhátíðar í ár

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Sylvía Erlu og Röggu Gísla var bætt við dagskrá Þjóðhátíðar eftir gagnrýni um kvenleysi á sviðinu í ár.
Sylvía Erlu og Röggu Gísla var bætt við dagskrá Þjóðhátíðar eftir gagnrýni um kvenleysi á sviðinu í ár. Vísir
Prósenta kvenflytjenda á Þjóðhátíð var að aukast örlítið en tónlistarmennirnir Unnsteinn Manúel Stefánsson og Lára Rúnarsdóttir hafa gagnrýnt hversu fáar konur verði á sviðinu í Herjólfsdal í ár.

Lára Rúnars hefur starfað með Kítón frá upphafi en félagið leggur sitt að mörkum til þess að efla stúlkur í tónlistarsköpun á Íslandi. Árangur erfiðisins kom glögglega í ljós á Músíktilraunum í ár en aldrei hafa fleiri stelpur tekið þátt.

Þrjár konur á dagskránni í ár

Í gær var útlit fyrir að Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir, hljómborðsleikari Retro Stefson, yrði eina konan sem stigi á svið hátíðarinnar í ár en nú hafa þær Ragnhildur Gísladóttir og nýstirnið Sylvía Erla bæst í hópinn. Það verða því þrjár konur sem koma fram á Þjóðhátíð í ár.

Önnur atriði sem bætt var við á dagskránna í dag eru Helgi Björnsson og hljómsveitin Dikta. Eins og flestir vita verður aðalatriði hátíðarinnar í ár hljómsveitin Quarashi en  þjóðhátíðarlagið í ár eiga þeir Sverrir Bergmann og Friðrik Dór sem stíga einnig á svið.

Aðrir listamenn í ár eru Emmsjé Gauti, Agent Fresco, Úlfur Úlfur, Jón Jónsson, Sturla Atlas, Herra Hnetusmjör og Júníus Meyvatn og fleiri.

Hér fyrir neðan má svo heyra slagara Sylvíu Erlu Gone sem margir héldu eflaust að væri erlent lag.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×