Skoðun

Grundvallarspurning til forsetaframbjóðenda

Eftirfarandi eru tvær samhangandi spurningar. Samanlagt snerta þær knýjandi spurningu um stjórnskipulag og stjórnarfar á Íslandi. Enginn sem býður sig fram til að gegna embætti forseta Íslands ætti að koma sér undan því að svara þeirri spurningu, því verðandi forseti mun standa frammi fyrir henni. Hún varðar farsæld og hamingju þjóðarinnar. Spurning I (tvíþætt) Núverandi ríkisstjórnarflokkar gáfu kjósendum fyrirheit um að Alþingi boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB. Formsins vegna yrði slík þjóðaratkvæðagreiðsla ráðgefandi. a) Teldir þú réttlætanlegt að Alþingi hunsaði niðurstöðu þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu, færi hún fram? b) Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram um frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá 20. október 2012. Frumvarpið var samþykkt sem grundvöllur nýrrar stjórnarskrár og hlaut stuðning 67% kjósenda. Teldir þú réttlætanlegt að Alþingi virti ekki niðurstöðu þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu? Spurning II (tvíþætt) Á liðnu kjörtímabili ákvað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012, og gerði ekki efnislegar breytingar á tillögunum, samþykktum grundvelli að nýrri stjórnarskrá. Í sama anda hefur Ragnar Aðalsteinsson lögmaður sagt um mögulegar efnislegar breytingar á samþykktum tillögum: „Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins.“ a) Ert þú sammála Ragnari Aðalsteinssyni eða telur þú að Alþingi geti horft framhjá þeim lýðræðislegu grundvallarsjónarmiðum sem ráða afstöðu hans? b) Lawrence Lessig, lagaprófessor við Harward-háskóla, spurði í Fréttablaðinu nýlega, vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012: „Hunsar Alþingi fullveldisrétt þjóðarinnar?“ Hann spurði síðan, í rökréttu framhaldi: „Með hvaða rétti?“ – Getur þú, forsetaframbjóðandi, svarað því?



Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×