„Þetta kemur þannig til að árið 2014 spilaði Stjarnan á móti Motherwell frá Skotlandi í Evrópukeppninni. Við vorum nokkrir úr Silfurskeiðinni sem fórum til Skotlands og þar sáum við þetta með berum augum og urðum alveg dolfallnir. Þeir voru með bestu trommur sem við höfðum séð og hluti stuðningsmannanna sungu þetta lag endalaust. Þetta var algjörlega magnað,“ segir Andri Heiðar Sigurþórsson einn af forsprökkum Silfurskeiðarinnar.
Drunurnar eru í raun klapp í takt við trommuslátt og eru intro að stuðningsmannalagi Stjörnunnar „Frá Stjörnunni ég aldrei vík, sú tilfinning er engu lík.“ Eftir ferðina til Skotlands tók einn meðlimur Silfurskeiðarinnar, Elías Karl Guðmundsson, sig til og gerði íslenskan texta við lagið sem stuðningsmenn Motherwell höfðu sungið og útkoman varð stuðningsmannalag Garðbæinga.
Hér fyrir neðan má heyra lagið.
Víkingadrunurnar hafa vakið mikla athygli, eins og reyndar flest það sem tengist á einhvern hátt íslenska landsliðinu enda er árangur þeirra á EM stórbrotinn. Þeir eru nú komnir í 8-liða úrslit mótsins þar sem þeir munu mæta gestgjöfum Frakka á þjóðarleikvangi þeirra, Stade de France, í París á sunnudag.
Hér fyrir neðan má sjá mannfjöldann á Arnarhóli taka fagnið eftir leikinn í gær.
Hér fyrir neðan má svo heyra söng áhangenda Motherwell.
Það var rafmagnað andrúmsloft við Arnarhól. Sjáið víkingafagnið í bláa hafinu hérna heima. #EMÍsland https://t.co/dDYhDYAfyB
— Síminn (@siminn) June 27, 2016