Íslenski boltinn

Víkingar neituðu að gefa viðtöl eftir bikartapið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Víkingar veittu engin viðtöl eftir tapið gegn Val í 16 liða úrslitum Borgunarbikars karla í kvöld.

Víkingsliðið byrjaði leikinn frábærlega og komst í 2-0 en í seinni hálfleik minnkaði Nokolaj Hansen, leikmaður Vals, muninn með skallamarki á 52. mínútu.

Fimm mínútum síðar fékk Martin Svensson, danskur leikmaður Víkings, beint rautt spjald fyrir að kýla samlanda sinn Hansen í punginn og það af miklum krafti. Það ótrúlega atvik má sjá hér.

Eftir leik báðu blaðamenn á staðnum um viðtöl og fór fjölmiðlafulltrúi Víkings inn í hús að sækja þjálfara og leikmenn en sneri aftur tómhentur.

Blaðamenn á staðnum fengu þær fréttir að hvorki Milos Milojevic, þjálfari Víkings, né leikmennirnir gæfu kost á viðtölum. Það var ekki útskýrt frekar en má áætla að þeir hafi verið ósáttir við Guðmund Ársæl Guðmundsson, dómara leiksins.

Víkingar fara nú í EM-frí eftir tvo tapleiki í röð í deild og bikar. Þeir töpuðu 2-1 fyrir Fjölni í Pepsi-deildinni í síðustu umferð og misstu svo niður 2-0 forystu í kvöld og eru úr leik í Borgunarbikarnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×