Körfubolti

Tekur slaginn með nýliðunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingvi færir sig um set á Norðurlandinu.
Ingvi færir sig um set á Norðurlandinu. vísir/ernir
Körfuboltamaðurinn Ingvi Rafn Ingvarsson er genginn í raðir Þórs frá Akureyri sem eru nýliðar í Domino's deild karla. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.

Ingvi, sem er 22 ára gamall bakvörður, kemur frá Tindastóli þar sem hann hefur leikið allan sinn feril.

„Ingvi er flottur liðsmaður sem hugsar um liðið fyrst og fremst. Hann á eftir að hjálpa okkur á marga vegu og á bara eftir að verða enn betri. Hann er ungur ennþá og er tilbúinn að leggja á sig.

„Þrátt fyrir ungan aldur þá kemur hann með mikilvæga reynslu úr úrvalsdeildinni sem á eftir að nýtast liðinu vel,“ segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, á heimasíðu félagsins.

Ingvi var með 2,3 stig að meðaltali í leik á nýafstöðnu tímabili. Tímabilið þar á undan skoraði hann 7,5 stig að meðaltali, tók 3,2 fráköst og gaf 2,8 stoðsendingar í leik fyrir Stólana sem fóru alla leið í úrslit þar sem þeir töpuðu fyrir KR.

Þór vann 1. deildina á síðasta tímabili og leikur því í efstu deild næsta vetur, í fyrsta sinn frá tímabilinu 2008-09.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×