„Ég ætlaði bara að fá mér ís,“ segir Júlíus Orri í samtali við Vísi um körfuboltaleikinn óvænta en Júlíus er sjálfur afar efnilegur körfuboltamaður og spilar körfubolta með Þór á Akureyri undir styrkri handleiðslu Benedikts Guðmundssonar þjálfara en Júlíus Orri er nýkrýndur tvöfaldur meistari með 9. flokki Þórs.
Júlíus var í för með móður sinni, Guðrúnu Gísladóttir, við Brynju þegar hann rak augun í Jeremy Lin sem spilar með Charlotte Hornets í NBA-deildinni.
„Ég spurði mömmu hvort þetta væri örugglega hann en hún sagðist ekkert vita um það,“ segir Júlíus Orri sem var fljótur að vinda sér upp að Jeremy til þess að biðja um eiginhandaráritun. Það var auðsótt mál og var Júlíus Orri ansi kátur þegar mæðginin settust upp í bíl til þess að halda heim á leið.

Þar tókust þeir á, Júlíus Orri og Jeremy Lin og líkt sjá má á meðfylgjandi myndbandi var jafnfræði með þeim.
„Við tókum einn leik upp í 7. Hann vann mig 7-5 en ég stóð alveg í honum og komst í 4-1,“ en Jeremy tryggði sér sigurinn með þriggja stiga körfu í blálokin.
Báðir eru þeir leikstjórnendur og segir Júlíus Orri að upplifunin hafi verið ógleymanleg enda ekki á hverjum degi sem NBA-stjarna mætir á klakann og tekur léttan körfuboltaleik við upprennandi körfuboltastjörnu.
Lin, sem var fyrsti Bandaríkjamaðurinn af kínverskum uppruna til að spila í NBA-deildinni, sló í gegn tímabilið 2011-2012 þegar hann lék með New York Knicks, en hálfgert Lin-æði (Linsanity) greip þá um sig í körfuboltaheiminum.
Lin, þá lítt þekktur, stökk fram á sjónarsviðið í febrúar 2012 þegar hann leiddi Knicks til sjö sigurleikja í röð. Hann fór m.a. á kostum í leik gegn Lakers í Madison Square Garden þar sem hann skoraði 38 stig og gaf sjö stoðsendingar.