Körfubolti

Justin Shouse verður áfram með Stjörnunni á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse.
Justin Shouse. Vísir/Anton
Stjörnumenn tilkynntu samninga við nær allt karlaliðið sitt í Domino´s deild karla í körfubolta í kvöld en þá var gengið frá samningum við tíu leikmenn liðsins.

Einn af þeim sem skrifuðu undir nýjan samning við leikstjórnandinn Justin Shouse sem mun því spila sitt níunda tímabil í röð í Garðabænum og það tólfta á Íslandi.  Fyrsta tímabil Justin Shouse með Stjörnunni var 2008-09 en hann hefur orðið þrisvar bikarmeistari með félaginu.

Justin Shouse heldur upp á 35 ára afmælið sitt í haust en hann sýndi það í vetur þar sem hann var með 18,8 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í Domino´s deildinni að hann hefur enn mikið fram að færa á körfuboltavellinum.

Karfan.is sagði í kvöld frá samningum Körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar við þá  Marvin Valdimarsson, Sæmund Valdimarsson, Ágúst Angantýsson, Brynjar Magnús Friðriksson, Egill Agnar Októsson, Óskar Þór Þorsteinsson, Justin Shouse, Arnþór Freyr Guðmundsson, Magnús Bjarka Guðmundsson og Grímkel Orra Sigþórsson.

Tómas Þórður Hilmarsson er á leiðinni út í nám og verður því ekki með næsta vetur og þá er ekki ljóst hvort Al´lonzo Coleman verði áfram.

Stjörnumenn höfðu krækt í einn nýjan leikmann en liðið fékk þá til sína Eystein Bjarna Ævarsson frá Hetti.

Stjarnan endaði í 2. Sæti í deildarkeppninni á síðasta tímabili og vann deildarmeistara KR meðal annars tvisvar. Liðið datt síðan út í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar eftir oddaleik á móti Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×