Skoðun

Bessastaðir og Mansion House

Þorkell Helgason skrifar
Hvað eiga þessi tvö hús sameiginlegt? Annað er aðsetur forseta Íslands en í hinu situr borgarstjóri Lundúnaborgar. Það er þó gjörólíkt hvernig menn komast til ábúðar í þessum húsum. Framundan er að velja næsta bónda á Bessastöðum. Það verður gert með svokallaðri meirihlutakosningu. Sá vinnur sem flest fær atkvæðin, óháð því hvort hann nær meirihluta atkvæða eða ekki. Nú kunna allmargir að takast á um forsetaembættið. Þá er undir hælinn lagt hver stuðningurinn verður við vinningshafann. Borgarstjórinn í London er á hinn bóginn kjörinn á þann hátt að meiri líkur eru á því en minni að hann njóti stuðnings meirihlutans. Lítum nánar á kosninguna sem fram fór í London 5. maí sl.

Kjósandi í London merkir við þann frambjóðanda sem hann helstan kýs, allt eins og hér. En að auki býðst honum að merkja við annan til vara. Uppgjörið fer þannig fram að fyrst eru talin saman atkvæði í aðalvali kjósenda. Nái þá einhver meirihlutafylgi er hann rétt kjörinn borgarstjóri. Ef ekki, kemur sá frambjóðandi sem fær fæst aðalatkvæði ekki lengur til greina. Atkvæði hans færast til hinna frambjóðendanna í samræmi við varaval hvers þessara kjósanda. Þessu er haldið áfram koll af kolli þar til einungis tveir frambjóðendur eru eftir og er þá að sjálfsögðu sá valinn sem hefur flest atkvæði.

Hvernig voru úrslitin fengin í London?

Tólf buðu sig fram í borgarstjóraembættið. Þeir sem flest atkvæði hlutu í aðalvali kjósenda voru frambjóðendur Verkamannaflokksins annars vegar og Íhaldsmanna hins vegar, þeir Sadiq Khan og Zac Goldsmith. Fylgi þeirra tveggja kemur fram í tveimur fyrstu talnadálkunum í meðfylgjandi töflu.

Af töflunni sést að enginn frambjóðandi hlaut hreinan meirihluta atkvæða í aðalvali kjósenda. Ef þetta væru forsetakosningar á Íslandi væri hér með amen eftir efninu og Khan kjörinn út á 44% fylgi. Atkvæði þeirra tæplega 21% kjósenda, sem völdu einhvern hinna tíu – en þeir eru spyrtir saman í töflunni – myndu detta niður dauð og ómerk. Þau réðu engu um það hvort Khan eða Goldsmith yrði að lokum valinn. Þó er ljóst að þau ættu að geta ráðið úrslitum.

Í London er því ekki látið staðar numið heldur rýnt í varaval kjósenda þeirra frambjóðenda sem reka lestina og atkvæðin færð til í samræmi við vilja kjósenda. Lokaniðurstaðan er sýnd í fjórða talnadálki töflunnar.





Að loknum tilfærslum atkvæða í varavali sést að Khan nær hreinum meirihluta gildra atkvæða, þótt naumur sé eða 50,4%. Úr lokadálki töflunnar má lesa að einungis 11,3% kjósenda hafa engin áhrif á það hvor þeirra efstu náði kjöri. Án varavalsins væru þessir áhrifalausu nær helmingi fleiri eða 20,7%. Ástæður þess, að tiltölulega mörg atkvæði – eða 246.286 – fara forgörðum þrátt fyrir varavalið, eru einkum tvær. Annars vegar sú að kjósendur hirtu ekki um að velja varamann en hins vegar vegna þess að tiltölulega margir völdu sama frambjóðanda sem aðal- og varamann og gerðu þar með varaval sitt marklaust. Hjá þessu síðarnefnda hefði mátt komast með betri útfærslu kjörseðilsins en það er önnur saga.

Aðferðafræðin í þessum bresku borgarstjórakosningum er vel þekkt. Hún hefur verið notuð í nær heila öld á Írlandi, m.a. við forsetakjör, og hún var notuð í kosningunum til Stjórnlagaþingsins sáluga 2010 og henni mun verða beitt við kjör á formanni Samfylkingarinnar nú á næstunni. Kosningin á borgarstjóranum í London og kosningin til Stjórnlagaþingsins eiga fleira sameiginlegt, m.a. að í báðum var talið rafrænt. En munurinn er sá að Hæstiréttur leyfði sér að úrskurða íslensku kosninguna ólöglega.

Stjórnlagaráð lagði til margvíslegar umbætur á fyrirkomulagi forsetakosninga, svo sem um fjölgun meðmælenda svo og að kjósendur gætu forgangsraðað frambjóðendum svipað og í þessari bresku kosningu. En allt hefur þetta dagað uppi. Því sitjum við líka uppi með það að forseti lýðveldisins getur veitt „…?undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til“. eins og segir í hinum gildandi grundvallarlögum okkar, bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944.

Er ekki tími til kominn að fólk kynni sér stjórnarskrármálið?

Uppfært 17. maí: Ekki er rétt að borgarstjóri Lundúna sitji í Mansion House. Það er aðsetur Lord Mayor of London (The Lord Mayor of The City of London) sem er ævaforn virðingarstaða. Þá er talningaraðferðin í London ekki nákvæmlega eins og sú sem beitt er í forsetakosningum í Írlandi eða verður notuð í væntanlegu formannskjöri í Samfylkingunni. Allt eru þetta aðferðir „færanlegs atkvæðis“ en af þeim eru til ýmis afbrigði. Í London eru aðferðin einfölduð nokkuð og atkvæði einungis færanleg til tveggja efstu að aðalvali en ekki í þrepum upp á við eins og í hinni eiginlegu „írsku aðferð“. Taflan sem fylgir greininni er engu að síður rétt.




Skoðun

Sjá meira


×