Körfubolti

Einn af þrennustrákunum Dominos-deildarinnar í Stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eysteinn Bjarni Ævarsson.
Eysteinn Bjarni Ævarsson. Vísir/Anton
Stjarnan hefur fengið góðan liðstyrk fyrir átökin í Domino´s deild karla í körfubolta á næsta tímabili en Eysteinn Bjarni Ævarsson hefur ákveðið að spila í Garðabænum.

Karfan.is segir frá félagsskiptum Eysteins í dag en hann undirritaði samninginn í gær.  Eysteinn hyggur á nám í höfuðborginni næsta vetur og var því að leita sér að liði á höfuðborgarsvæðinu.

Eysteinn Bjarni Ævarsson er nýorðinn 21 árs gamall en hann spilaði stórt hlutverk með Hetti í Domino´s deildinni á nýloknu tímabili þar sem hann var með 10,0 stig, 5,7 fráköst og 3,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Eysteinn Bjarni lék meira af sér kveða eftir áramót en í síðustu ellefu umferðunum var hann með 12,9 stig, 6,7 fráköst og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Eysteinn Bjarni endaði síðan á því að ná glæsilegri þrennu í síðasta heimaleiknum en hann var þá með 29 stig, 10 fráköst, 10 stoðsendingar og 3 stolna bolta á móti Þór úr Þorlákshöfn.

Eysteinn er stór og kraftmikill bakvörður sem getur spilað fleiri en eina stöðu. Mikilvægi hans fyrir Hattarliðið sést líka á því að hann var með flotta tölfræði í þremur sigurleikjum liðsins í deildinni í vetur (12,3 stig, 6,0 fráköst og 5,3 stoðsendingar í leik).

Stjarnan verður þriðja félagið hans í úrvalsdeildinni því auk þess að spila með Hetti í vetur þá lék hann eitt tímabil með Keflavík 2014-15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×