Erlent

Neyðarástandi lýst yfir og verksmiðjur teknar eignarnámi í Venesúela

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjölmenn mótmæli gegn stjórn Maduro fóru fram í höfuðborginni Caracas í dag.
Fjölmenn mótmæli gegn stjórn Maduro fóru fram í höfuðborginni Caracas í dag. vísir/epa
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hefur fyrirskipað að eigendur verksmiðja, sem hægt hafa á eða stöðvað framleiðslu sína, skuli handteknir. Þá skuli verksmiðjur þeirra teknar eignarnámi. Frá þessu er sagt á BBC.

Gripið var til þessa ráð eftir að stærsti matvælaframleiðandi landsins, Polar Group, stöðvaði framleiðslu á bjór sökum þess að innflutningi á byggi var hætt á dögunum.

Efnahagur Venesúela er í molum. Í ræðu í gær lýsti Maduro yfir neyðarástandi í landinu af þeim sökum. Eignaupptakan í dag er liður í að reyna að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl.

Aðgerðin hefur sætt mikilli andstöðu hjá stjórnarandstæðingum sem hafa mótmælt í höfuðborginni Caracas. Mótmælendur telja að efnahagsstefna Maduro sé ástæðan fyrir því hvernig ástandið í landinu er. Víða er skortur á matvælum, lyfjum og ýmsum öðrum nauðsynjum.

Venesúela býr yfir stærstu olíubirgðum veraldar en með fallandi heimsmarkaðsverði á olíu hefur hrikt í stoðum efnahagskerfisins þar í landi. Landsframleiðsla í fyrra var tæpum sex prósentum lægri en árið þar á undan og verðbólga er sem stendur hátt í 180 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×