Elísabet Jökulsdóttur rithöfundur sem hefur tilkynnt um framboð sitt til forseta Íslands er mjög nálægt því að ná að fylla alla þá stuðningslista sem til þarf svo að framboð hennar verði gilt. Skilafrestur stuðningslista til framboðs rennur út að miðnætti í dag og nú þegar hefur Elísabet náð að fylla þrjá af þeim fjórum listum sem til þarf. Hver listi stendur fyrir sinn landsfjórðung og Elísabetu vantar aðeins þrjá til fimm einstaklinga á Vestfjörðum til þess að klára.
„Framboðið veltur á því að finna þrjá til fimm Vestfirðinga,“ segir Elísabet sem stödd er á Egilsstöðum þar sem hún hélt tölu í gær um áfall og áhrif þeirra á mannlíf. Dagurinn í dag hefur verið spennandi því stutt er þar til fresturinn rennur út. „Svona er lífið. Það koma upp alls konar uppákomur. Þetta er eins og að taka próf. Ferðast um Íslands, hitta fólk og tala við það.“
Vill bæta samskipti
Elísabet segir fullt af fólki hafa hjálpað sér við söfnunina en hún hefur sjálf verið dugleg við að standa og safna. Spurð um helstu áherslur svarar hún;
„Ég legg áherslu á fólk og samskipti. Að við séum góð við hvort annað og að við höfum trú á hvort öðru og tölum saman. Ég hef takmarkaðan áhuga á svokölluðum málefnum, mér finnst að Alþingi eigi að sjá um það og aðrar stofnanir lýðræðisins. Við þörfum bara að vinka hvort öðru meira og tala saman. Breyta ýmsum kúltúr sem hér hefur verið við lýði í fjöldamörg ár; meðal annars því að bera ekki tilfinningar sínar á torg sem hefur sýkt samfélagið. Ég hef áhuga á að bæta þau samskipti.“
Elísabet vill koma því á framfæri til þeirra Vestfirðinga sem áhuga hafa á því að styðja framboð hennar að nýta sér aðra af tveimur leiðum. Önnur er að banka upp á hjá henni á Framnesvegi 56A og skrifa undir lista en hin er að hafa samband í síma 659 1147 og tala við Elsu.
