Handbolti

Hákon Daði: Meira og minna allt inni hjá mér

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Hákon var frábær í úrslitakeppninni fyrir Hauka.
Hákon var frábær í úrslitakeppninni fyrir Hauka. vísir/ernir
Hákon Daði Styrmisson var mikill happafengur fyrir Hauka. Hann kom óvænt til félagsins frá ÍBV í janúar og fór á kostum í undanúrslitaeinvíginu gegn sínu gamla liði. Hann toppaði það svo með tíu mörkum í úrslitaleiknum gegn Aftureldingu í kvöld eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í síðasta leik.

„Ég var slakur í síðasta leik. Davíð (Svansson) var að verja vel þá. Þetta er búið að vera sitt á hvað hjá okkur Davíð og Pálmari (Péturssyni),“ sagði Hákon Daði.

„Það var meira og minna allt inni hjá mér í kvöld. Það var geggjað. Ég breyti ekki neinu. Ég er alltaf með sömu rútínu fyrir leiki og það er frábært þegar það virkar. Ef það virkar ekki þarftu að skoða hvað þú gerir inni á vellinum.“

Þetta er ekki fyrsti oddaleikurinn sem Hákon Daði upplifir í DB Schenkerhöllinni. Hann var fremstur í flokki Hvíta-Riddarans, stuðningsmannasveitar ÍBV sem fagnaði Íslandsmeistaratitli eftir á sigur á Haukum fyrir tveimur árum í oddaleik.

„Þetta er geggjað og hitt var geggjað líka. Það er æðislegt að taka þátt í þessu,“ sagði Hákon sem stefndi alltaf á að verða meistari með Haukum þegar hann kom til liðsins í janúar.

„Já en maður getur aldrei ímyndað sér neitt svona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×