Erlent

Þaulsætnasti forseti heims endurkjörinn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Theodoro Obiang Nguema Mbasogo verður 74 ára gamall í júní.
Theodoro Obiang Nguema Mbasogo verður 74 ára gamall í júní.
Teodoro Obiang Nguema Mbasogo bar örugglega sigur úr býtum í forsetakosningum Miðbaugs Gíneu sem fram fóru á sunnudag. Útlit er fyrir að hann hafi hlotið 99,2 prósent greiddra atkvæða. Fjallað er um málið á Washington Post.

Kosningarnar nú voru þær fyrstu í landinu frá stjórnarskrárbreytingum sem gerðar voru árið 2011. Sú breyting takmarkar setu forseta í embætti við tvö sjö ára kjörtímabil. Að auki var embætti varaforseta komið á fót og getur hann tekið við falli forseti frá á kjörtímabilinu.

Mbasogo hefur nú þegar setið í stóli forseta frá árinu 1979. Þá komst hann til valda eftir blóðuga byltingu. Hann er þaulsetnasti forseti heimsins. Kamerúninn Paul Byia er hins vegar þaulsetnasti kjörni þjóðhöfðingi heimsins. Hann sat hins vegar nokkur ár sem forsætisráðherra áður en hann varð forseti.

Hin nýja stjórnarskrá þýðir að Mbasogo getur í mesta lagi setið í forsetastóli í fjórtán ár til viðbótar. Fyrri kjörtímabil hans hafa ekki áhrif á leyfi hans til að sitja áfram þar sem þau voru í tíð eldri stjórnarskrár.

„Ég er frambjóðandi fólksins. Hver sá sem kýs mig ekki er andvígur friði og fylgjandi óreiðu og óvissu í landinu,“ sagði Mbasogo á kjörfundi í höfuðborginni Malabo. „Margir segja að þeir séu leiðir á að sjá mig eftir 36 ár. Það má vel vera en ég hef helgað lífi mínu þessu landi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×