Körfubolti

Helgi er núna ánægður með bróður sinn: Ferillinn hefði ekki getað endað betur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Helgi kvaddi með Íslandsmeistaratitli.
Helgi kvaddi með Íslandsmeistaratitli. vísir/ernir
„Þetta er bara æðislegt og ég hefði ekki getað ímynda með mér betri endir á ferlinum,“ segir Helgi Már Magnússon, leikmaður KR, eftir leikinn en Helgi hefur nú formlega lagt skóna á hilluna.

KR varð í kvöld Íslandsmeistari þriðja árið í röð og í 15. skipti í sögu félagsins. Liðið vann einvígið við Hauka, 3-1, en leikurinn í kvöld fór 84-70 fyrir KR. 

„Þetta einvígi var nokkuð strembið, þeir voru kannski eitthvað yfirspenntir í fyrsta leiknum en svo komu þeir virkilega sterkir til baka.“

Helgi segir að næstu þrír leikir hafi verið mjög erfiðir gegn Haukum.

„Við náum bara að sigla þessum leik heim undir lokin, mjög agaðir og ætluðum bara að klára þetta hægt og rólega.“

Helgi segist geta samglaðst Finni bróður sínum núna eftir að hann setti magnaðan flautuþrist í síðasta leik.

„Það er auðvitað geðveikt að eiga svona á ferilskránni, svona skot. Sérstaklega að gera þetta í grillið á gömlu liðsfélögunum og bróður sínum. Ég er bara ánægður með þetta núna.“

Helgi er að flytja út til Bandaríkjanna og er því hættur í körfubolta.

„Ég flyt út á fimmtudaginn næsta og mun fagna vel næstu daga  og bara í allt sumar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×