Körfubolti

Haukar án lykilmanns í þriðja sinn í þessari úrslitakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrst Kári Jónsson, svo Brandon Mobley og loks Hjálmar Stefánsson.
Fyrst Kári Jónsson, svo Brandon Mobley og loks Hjálmar Stefánsson. Vísir/Anton
Hjálmar Stefánsson verður ekki með Haukum á móti Tindastól á Sauðárkróki í kvöld þegar liðin mætast í fjórða sinn í undanúrslitaeinvígi sínu í Dominos-deild karla í körfubolta.

Haukar eru 2-1 yfir í einvíginu eftir tvo heimasigra og komast því í lokaúrslit með sigri í Síkinu í kvöld.  Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndir beint á Stöð 2 Sport 3 og Stöð 2 Sport 3 HD.

Haukarnir þurfa að spila án lykilmanns í þessum leik því Hjálmar Stefánsson er enn að jafna sig eftir höfuðhöggið sem hann hlaut í síðasta leik. Hjálmar Stefánsson fékk þá dæmda á sig villu fyrir "að verða fyrir" olnboga Darrel Lewis en atvikið gerðist strax í fyrsta leikhlutanum og Hjálmar spilaði ekki meira í leiknum.

Hjálmar verður í kvöld þriðji lykilmaður Hauka sem missir af leik í úrslitakeppninni og í viðbót hafa Haukarnir misst lykilmann í meiðsli eða brottrekstur í þremur öðrum leikjum. Báðir hinir leikirnir hafa verið á útivelli eins og þessi í kvöld og Haukarnir hafa unnið þá báða.

Sjá einnig:Atvikið sem sendi Hjálmar upp á spítala: Hvernig er þetta villa á Haukamanninn?

Haukaliðið lék án Kára Jónssonar í öðrum leiknum á móti Þór í Þorlákshöfn í átta liða úrslitunum en hann hafði meiðst í fyrri hálfleik í fyrsta leiknum. Haukarnir unnu Þórsliðið án Kára 76-65 og jöfnuðu þá einvígið.

Haukaliðið lék án bandaríska leikmannsins Brandon Mobley í fjórða leiknum á móti Þór í Þorlákshöfn í átta liða úrslitunum en Mobley hafði verið rekinn út úr húsi eftir aðeins átta mínútna leik í þriðja leiknum. Hann tók því út leikbann í leik fjögur en Haukarnir unnu Þór án Mobley 100-96 eftir framlengdan leik og tryggðu sér með því sæti í undanúrslitunum.

Haukaliðið hefur þegar spilað sjö leiki í úrslitakeppninni í ár, fjóra í átta liða úrslitunum á móti Þór og þrjá í undanúrslitaeinvíginu á móti Tindastól. Það er bara í tveimur af þessum sjö leikjum þar sem Haukaliðið hefur byrjað og klárað leikinn með alla sína lykilmenn.

Sjá einnig:Hjálmar með einkenni heilahristings: Stokkbólginn og marinn en gæti mætt í næsta leik

Haukarnir voru búnir að spila tvo fyrstu leikina á móti Tindastól án þess að missa af mann en Hjálmar fór síðan blóðugur af velli í þriðja leiknum. Nú er að sjá hvort Haukunum tekst að sigrast á enn einu mótlætinu í þessari úrslitakeppni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×