Körfubolti

Haukarnir geta fært bæði félaginu og þjálfaranum góða afmælisgjöf í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ívar Ásgrímsson.
Ívar Ásgrímsson. Vísir/Ernir
Haukar eiga möguleika á því að tryggja sér sæti í lokaúrslitum Domino´s-deildar karla í körfubolta í kvöld með sigri á Stólunum í Síkinu á Sauðárkróki.

Það eru liðnir meira en tveir áratugar síðan að Hafnarfjarðarliðið spilaði um Íslandsmeistaratitilinn í karlakörfunni og því hefur biðin verið löng hjá Haukum.

Haukar geta með sigri í kvöld fært félaginu flotta afmælisgjöf í tilefni af 85 ára afmæli Hauka en félagið var stofnað 12. apríl 1931 og heldur því upp á afmæli sitt í dag.

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Haukaliðsins, átti einnig afmæli í gær, varð þá 51 árs, og sigur í kvöld yrði því í raun tvöföld afmælisgjöf.  

Þetta yrði í fyrsta sinn sem Ívar kæmi karlaliði í lokaúrslitin en Haukarnir sátu eftir í undanúrslitunum undir hans stjórn bæði 2000 og 2015.

Ívar fór tvisvar sinnum með kvennalið ÍS í lokaúrslit á sínum tíma en gæti nú komist í hóp þeirra þjálfara sem hafa farið með bæði kynin í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.

Haukar hafa ekki komist í lokaúrslitin í 23 ár (1993) og þeir unnu Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta og eina skiptið í karlaflokki fyrir 28 árum (1988).  Ívar var leikmaður með Haukum þegar titilinn vannst í framlengdum oddaleik í Njarðvík 19. apríl 1988.

Karlalið Hauka hefur alls komist fjórum sinnum í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn en liðið var þar einnig 1985 og 1986 þar sem liðið tapaði á móti Njarðvík í bæði skiptin.

Haukastelpurnar gerðu sitt í gærkvöldi með því að tryggja sér sæti í lokaúrslit kvenna og félagið hefur þegar fengið góða afmælisgjöf í tilefni af 85 ára afmælinu hvernig sem fer á Króknum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×