Körfubolti

Ívar: Stórkostlegt að vera með alla þessa uppöldu stráka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þjálfararnir eru klárir í slaginn.
Þjálfararnir eru klárir í slaginn.
„Ég býst við mjög góðu einvígi á milli tveggja góðra liða sem eru að fara að slást,“ segir Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, en hans menn mæta KR í fyrsta leiknum um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld.

„Bæði lið spila áþekkan körfubolta. Vilja stjórna svolítið hraðanum og spila kerfi í sókninni. Þetta er agaður körfubolti hjá báðum liðum og ég held að þetta geti orðið mjög spennandi viðureignir.“

Það er orðið ansi langt síðan Haukar spiluðu til úrslita um titilinn og því flott stemning í Hafnarfirði.

„Það eru orðin 23 ár síðan og því mikil spenna. Við höfum fengið fullt af áhorfendum og eigum gott stuðningsfólk. Ég hef ekki trú á öðru en að það fólk fjölmenni á þessa leiki. Það er jákvætt vandamál í Haukum að fjögur lið eru að spila til úrslita á sama tíma í handbolta og körfubolta. Það hefur áhrif enda tveir leikir í gangi á sama tíma í kvöld,“ segir Ívar en karlalið Hauka í handbolta spilar oddaleik í kvöld á meðan Ívar og félagar verða í DHL-höllinni.

„Við ætluðum okkur alltaf í úrslitin núna í ár. Við erum með ungt lið og höfum verið að byggja upp. Finnur Atli er sá eini sem er ekki alinn upp hjá Haukum. Það er stórkostlegt að þetta séu annars allt uppaldir strákar og sýnir hvað metnaðurinn hefur verið mikill. Við höfum unnið vel í okkar innviðum en þetta er rétt að byrja.“

Ívar segir að það sé ekkert mál að sofa þó svo það sé mikið stress fram undan.

„Maður er orðinn svo gamall að maður vaknar hvort eð er svo snemma til þess að pissa þannig að þetta er allt í lagi,“ segir Ívar léttur.

Sjá má viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

"Safinn undir sætinu, Haukarnir á krúsinu“

Haukar mæta með kassann úti í úrslitaeinvígið í körfuboltanum gegn KR og í dag kom út nýtt stuðningsmannalag fyrir Haukana. Páll Rósinkrans er þekktur fyrir sín Haukalög en í körfuboltanum er að sjálfsögðu rappað.

„Helgi getur étið það sem úti frýs“

Bræðurnir Helgi Már og Finnur Atli Magnússynir munu mætast í úrslitaeinvígi Domino's-deildar karla. Þeir verða sérstaklega nánir allt einvígið enda eru þeir báðir á hótel mömmu þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×