Körfubolti

Haukarnir hafa lent 1-0 undir í sex einvígum í röð í úrslitakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukamaðurinn Kári Jónsson.
Haukamaðurinn Kári Jónsson. Vísir/Anton
Haukar og Tindastóll hefja undanúrslitaeinvígi sitt á Ásvöllum í kvöld en þetta er annað árið í röð sem þessi félög spila um sæti í lokaúrslitum Domino´s deildar karla í körfubolta.

Tindastólsliðið var með heimavallarréttinn í fyrra og vann einvígið þá 3-1. Haukarnir eru með heimavallarréttinn í ár en bæði lið hafa verið á miklu skriði síðustu mánuði.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 í Schenkerhöllinni á Ásvöllum en hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Ætli Haukarnir sér að komast í lokaúrslitin í fyrsta skiptið í 23 ár (1993) þá þurfa þeir að breyta þeirri hefð sinni að lenda 1-0 undir í einvígum sínum í úrslitakeppninni.

Haukarnir töpuðu fyrsta leiknum á heimavelli í einvígi sínum á móti Þór Þorlákshöfn en tryggðu sér sæti í undanúrslitunum með því að vinna þrjá leiki í röð.

Þetta var sjötta einvígið í röð hjá Haukum þar sem þeir tapa fyrsta leiknum en Haukar hafa ekki unnið fyrsta leikinn í einvígi síðan 14. mars 2003.

Þá unnu Haukarnir einmitt 91-89 sigur á Tindastól á Ásvöllum. Stólarnir komust þó áfram því þeir unnu tvo næstu leiki og tryggðu sér sæti í undanúrslitunum.



Fyrsti leikur Hauka í síðustu ellefu einvígum í úrslitakeppninni

2016

8 liða úrslit: 67-64 tap á móti Þór Þorl. á heimavelli

2015

Undanúrslit: 94-64 tap á móti Tindastól á útivelli

8 liða úrslit: 86-78 tap á móti Keflavík á heimavelli

2014

8 liða úrslit: 88-84 tap á móti Njarðvík á útivelli

2011

8 liða úrslit: 76-67 tap á móti Snæfelli á útivelli

2004

8 liða úrslit: 100-61 tap á móti Njarðvík á útivelli

2003

8 liða úrslit: 91-89 sigur á móti Tindastól á heimavelli

2002

8 liða úrslit: 90-74 tap á móti Keflavík á útivelli

2001

8 liða úrslit: 85-77 tap á móti KR á útivelli

2000

Undanúrslit: 67-59 sigur á Grindavík á heimavelli

8 liða úrslit: 99-96 sigur á Þór á heimavelli (Strandgata)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×