Körfubolti

Haukur: Okkur er skítsama hvað er sagt um okkur

Tómas Þór Þórðarson á Ásvöllum skrifar
Haukur Óskarsson í leiknum í kvöld.
Haukur Óskarsson í leiknum í kvöld. Vísir/Ernir
"Við erum með mjög gott skotlið. Ef við fáum opin skot þá verðum við að skjóta," sagði Haukur Óskarsson, leikmaður Hauka, sigurreifur við Vísi eftir sigur á Tindastól í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Domino´s deildar karla í körfubolta.

Haukur skaut og skaut eins og aðrir Haukar í fyrri hálfleik en hitti sama og ekkert. Hann bætti sig heldur betur í seinni hálfleik eins og allt liðið.

"Þetta er leikur í úrslitakeppni og varnarleikurinn góður. Það er mikið undir þannig þá er ekkert jafn mikið að fara ofan í og til dæmis í deildarkeppninni. Nýtingin verður aldrei jafn góð þannig við verðum bara að halda áfram," sagði Haukur, en í kvöld var það vörnin sem skilaði sigrinum.

Bestu leikmenn Tindatóls komut ekki yfir 10 stig en stigahæstur var Helgi Rafn Viggósson með 18.

"Við erum með virkilega gott varnarlið og þegar við spilum svona vörn þá getum við stoppað þá alla. Helgi er topp leikmaður en það verður einhver að skora fyrir þá," sagði Haukur.

Sjá einnig:Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Tindastóll 73-61 | Haukar vörðu heimavöllinn

"Við leggjum auðvitað mikla áherslu á að stöðva útlendingana þeirra og svona þannig Helgi fékk kannski aðeins meira pláss en hann hefði átt að fá. En það verður einhver að skora eins og ég segi."

Haukur kallar eftir meiri virðingu þegar talað er um Haukaliðið sem hefur aðeins tapað einum leik síðustu mánuði.

"Þegar við vorum að spila á móti Þór var verið að kvarta yfir útlendingnum okkar og eitthvað svoleiðis en það er aldrei sagt bara að Haukar voru betra liðið," sagði Haukur.

"Okkur er skítsama svo lengi sem við vinnum. Við erum búnir að vinna tólf af síðustu þrettán leikjum þannig okkur er alveg sama hvað er sagt um okkur á meðan við höldum áfram að vinna leiki," sagði Haukur Óskarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×