Körfubolti

Körfuboltakvöld: Skagfirsk sveifla í Síkinu | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tindastóll tryggði sér sæti í undanúrslitum Domino's deildar karla með stæl þegar þeir unnu stórsigur, 98-68, á Keflavík í Síkinu á mánudagskvöldið.

Eins og tölurnar gefa til kynna höfðu Stólarnir mikla yfirburði í leiknum og hreinlega rúlluðu yfir ráðalausa Keflvíkinga.

Í Domino's Körfuboltakvöldi í gær var farið yfir þennan stórsigur Stólanna sem unnu einvígið 3-1.

Kjartan Atli Kjartansson og sérfræðingar hans, Fannar Ólafsson og Jón Halldór Eðvaldsson, voru mjög hrifnir af frammistöðu Helga Rafns Viggóssonar, fyrirliða Stólanna í leiknum í fyrradag.

„Helgi var besti leikmaður Tindastóls í leiknum,“ sagði Fannar og fór síðan yfir varnartaktík Stólanna.

„Þeir vísa þeim alltaf niður á endalínu og eru ekki að opna miðjuna. Það þýðir að þú hefur miklu minna pláss til að athafna þig eftir að þú ert kominn niður á endalínu. Það er alltaf meira pláss í miðjunni.“

Sérfræðingarnir fóru einnig yfir frammistöðu ungu strákanna í Tindastólsliðinu, Péturs Rúnars Birgissonar og Viðar Ágústssonar, sem áttu frábæran leik þrátt fyrir að hafa lent í bílveltu nokkrum dögum áður.

„Hann [Pétur] tók smá dýfu í vetur en svo er bara eins og hann hafi verið á Kanarí í þrjár vikur og komið til baka, endurnærður, fullur af D-vítamíni og klár í slaginn. Hann hefur verið stórkostlegur á báðum endum vallarins,“ sagði Jón Halldór og sneri talinu að Viðari:

„Ég get ekki hætt að dást að þessum dreng [Viðari]. Þessi gæji hefur flogið undir radarinn í vetur en varnarlega er hann asnalega góður. Hann er með þetta allt. Sjáðu hvað Costa [þjálfari Tindastóls] gerir: hann lætur hann dekka besta manninn í hinu liðinu.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×