Körfubolti

Njarðvíkingar hafa unnið og tapað á víxl í 17 leikjum í röð í úrslitakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson verður mikilvægur í kvöld.
Haukur Helgi Pálsson verður mikilvægur í kvöld. Vísir/Ernir
Stjarnan og Njarðvík spila í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í undanúrslitum Domino´s deildar karla í körfubolta en leikurinn fer fram á heimavelli Stjörnunnar í Ásgarði og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Ef marka má gengi Njarðvíkinga í úrslitakeppninni undanfarin þrjú ár þá eru þeir að fara að vinna oddaleikinn í Garðabæ í kvöld og tryggja sér með því undanúrslitaeinvígi á móti Íslandsmeisturum KR.

Njarðvíkingar hafa nefnilega unnið og tapað á víxl í öllum leikjum sínum í úrslitakeppni frá og með vorinu 2014. Þeir töpuðu síðasta leik í Ljónagryfjunni í Njarðvík og ættu því að fagna sigri í kvöld.

Njarðvík tapaði tveimur leikjum í röð í einvígi sínu á móti Grindavík í átta liða úrslitum 2014. Njarðvík vann fjórða leikinn og hefur síðan hvorki tapað tveimur leikjum í röð eða unnið tvo leiki í röð í úrslitakeppninni.

Þetta er fjórða einvígi Njarðvíkinga í röð í úrslitakeppninni sem endar með oddaleik en liðið vann Stjörnuna í oddaleik í fyrra en tapaði fyrir KR í undanúrslitum 2015 og á móti Grindavík í átta liða úrslitum 2014.



Síðustu sautján leikir Njarðvíkur í úrslitakeppninni:

Undanúrslit 2014

Leikur 3: 89-73 tap fyrir Grindavík

Leikur 4: 77-68 sigur á Grindavík

Leikur 5: 120-95 tap fyrir Grindavík

8 liða úrslit 2015

Leikur 1: 88-82 sigur á Stjörnunni (Framlengt)

Leikur 2: 89-86 tap fyrir Stjörnunni

Leikur 3: 92-86 sigur á Stjörnunni

Leikur 4: 96-94 tap fyrir Stjörnunni

Leikur 5: 92-73 sigur á Stjörnunni

Undanúrslit 2015

Leikur 1: 79-62 tap fyrir KR

Leikur 2: 85-84 sigur á KR

Leikur 3: 83-75 tap fyrir KR

Leikur 4: 97-81 sigur á KR

Leikur 5: 102-94 tap fyrir KR (Tvíframlengt)

8 liða úrslit 2016

Leikur 1: 65-62 sigur á Stjörnunni

Leikur 2: 82-70 tap fyrir Stjörnunni

Leikur 3: 73-68 sigur á Stjörnunni

Leikur 4: 83-68 tap fyrir Stjörnunni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×