Körfubolti

Pétur: Stóru strákarnir geta náð langt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Körfuboltagoðsögnin Pétur Guðmundsson var mættur á leik Þórs og Hauka í gær og Svali Björgvinsson greip kappann í viðtal.

„Það er mikil breyting á körfuboltanum hér heima. Mikil efni og gaman að sjá hvað strákarnir eru að gera í landsliðinu og svo úti. Það er mjög gaman að fylgjast með,“ segir Pétur um breytingarnar síðan hann lék hér síðast.

Pétur er búinn að nýta tækifærið í ferð sinni til Íslands núna til þess að hitta stóru strákanna í körfunni hér heima. Tryggva Hlinason hjá Þór á Akureyri og svo Ragnar Nathanaelsson hjá Þór í Þorlákshöfn. Bæði Pétur og Ragnar eru 218 sentimetrar en Tryggvi er 211 sentimetrar að hæð.

„Þessir strákar geta gert virkilega flotta hluti. Þeir þurfa að fá rétt tækifæri. Fá góða þjálfun og fá góða samkeppni. Það er spurning hvar samkeppnin finnst. Hvort það er hér eða annars staðar,“ segir Pétur en hann var að hitta Tryggva í fyrsta skipti en hefur þekkt Ragnar í nokkurn tíma.

„Ég veit að með réttri tilsögn geta þeir hjálpað Íslandi og náð langt.“

Pétur hefur sínar skoðanir á því hvernig eigi að nota svona stóra stráka á vellinum.

„Þeir þurfa að spila á móti öðrum stórum strákum til að læra að nýta sér stærðina. Leikurinn hefur mikið breyst. Þegar ég var að spila þá var ég eiginlega bara undir körfunni. Nú þurfa þessir strákar að bæta við sig góðu stökkskoti og jafnvel þriggja stiga skoti. Menn verða líka að geta verið með í spili.“

Viðtal Svala við Pétur má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×