Körfubolti

Heyrðum af því að Hill hefði verið á djamminu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jerome Hill í leik með Keflavík.
Jerome Hill í leik með Keflavík. vísir/vilhelm
Jerome Hill lék sinn síðasta leik fyrir Keflavík í gær er félagið var niðurlægt á Sauðárkróki og féll úr keppni í Dominos-deild karla.

„Það er vissulega áhyggjuefni að Keflavík sé að falla úr leik í átta liða úrslitum fimmta árið í röð. Við settum okkur það markmið fyrir ári síðan að stefna hærra næstu þrjú árin,“ segir Ingvi Þór Hákonarson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

„Það er alltaf sárt og erfitt að detta út svona snemma. Við toppuðum fyrir áramót og síðan var þetta upp og niður hjá okkur.“

Keflvíkingar fóru þá leið í upphafi febrúar að leysa Earl Brown undan samningi og semja við Jerome Hill sem hafði verið leystur undan samningi hjá Tindastóli. Það voru ekki allir sammála því að þetta væri rétta skrefið hjá Keflavík.

„Brown var með heimþrá og hugur hans stefndi heim. Þjálfararnir þurftu því að taka ákvörðun hvort þeir vildu spila honum áfram eða stökkva á Hill. Þeir vildu taka Hill og ég stend við þá ákvörðun með þeim,“ segir Ingvi.

Formaðurinn segir að Hill verði ekki áfram hjá félaginu en það voru sögusagnir um að hann hefði farið á djammið á föstudaginn langa. Það var ekki til að kæta stuðningsmenn félagsins.

„Ég heyrði af þessum sögusögnum. Það sást til hans úti á lífinu. Ég hef það ekki staðfest að hann hafi verið að drekka en ef svo er þá er það dapurt.“

Þjálfarar liðsins, Sigurður Ingimundarson og Einar Einarsson, eru með samning í eitt ár í viðbót og Ingvi býst ekki við öðru en að þeir verði áfram með liðið.

„Við tökum púlsinn á þeim og að öllu óbreyttu verða þeir áfram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×